150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágætisræðu þó að ég hafi ekki verið sammála megintóninum. Ég saknaði þess að hv. þingmaður skyldi ekki vera aðeins bjartari yfir stöðunni. Þegar vikið er að vaxtabótakerfinu er kannski rétt að draga fram að hluti af því a.m.k. af hverju vaxtabætur hafa lækkað er sú jákvæða þróun að laun hafa hækkað og vextir hafa aldrei verið lægri. Þeim sem eru að kaupa sér íbúð hefur aldrei staðið til boða fjármögnun á betri kjörum. Skuldastaða íslenskra heimila er gjörbreytt og hún er betri en í nokkru öðru ríki Norðurlandanna, alveg sama hvaða mælikvarða við styðjumst við. Eigið fé er miklu meira en á öðrum Norðurlöndum. Skuldastaðan sem hlutfall af ráðstöfunartekjum er miklu lægri en á öðrum Norðurlöndum og einnig skuldir í heild sem hlutfall af landsframleiðslu. Að þessu leyti er töluvert bjart yfir. Það er líka allt í lagi að draga fram í þessari umræðu að kaupmáttur launa hefur frá árinu 2015 hækkað um 25%, meira en í nokkru öðru landi, meira að segja í fyrirmyndarríkinu Evrópusambandinu. Hér er verið að innleiða þriggja þrepa tekjuskattskerfi og þegar menn tala um tekjuskattskerfið er allt í lagi að draga fram að staðan (Forseti hringir.) er alveg ótrúlega góð þó að margt eigi eftir að gera.