150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:44]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég yrði sannarlega bjartari yfir stöðunni ef hún væri ekki svona óréttlát. Að meðaltali getum við vissulega sagt að staðan á Íslandi sé þokkaleg. Við erum tíunda ríkasta þjóð í heimi og þess vegna eigum við að búa betur að okkar fátækasta fólki. Það er hins vegar ekki það sem þessi ríkisstjórn vill gera. Hún vill hlúa vel að þeim sem eru allra ríkastir.

Hv. þingmaður ræðir um vaxtabótakerfið og lætur að því liggja að ástæðan fyrir því að 27.000 manns hafi dottið út úr kerfinu sé sú að hér sé skuldastaða góð og allt þetta sem hv. þingmaður taldi upp. Staðreyndin er hins vegar sú að þrátt fyrir allt þetta þurfum við að horfa á viðmiðin sem eru undir. Þau hækkuðu um 5% í fyrra en annars höfðu þau staðið í stað frá árinu 2010. Ef menn vilja svelta og eyðileggja kerfi breyta þeir ekki viðmiðunum af því að allt annað hækkar og breytist og fjölskyldurnar detta út. Það er þannig, herra forseti, að við það að húsnæðisstuðningurinn er veiktur með þessum hætti og svo margar fjölskyldur detta út úr kerfinu er niðurstaðan sú að áhrif af launahækkunum og skattalækkunum núllast út og staða fólksins verður ekki eins góð og menn vildu. Um það bera vitni umsagnir frá ASÍ og fleiri stéttarfélögum. Þetta er staðreynd, (Forseti hringir.) þetta á ekki við um alla en þetta á við um lágtekjufólk sem á kannski ekki meira en 20% í húsnæði sínu. Þetta er skjalfest og er staðreynd, herra forseti.