150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er merkileg yfirlýsing að segja að verið sé að núlla út 32 milljarða lækkun á tekjuskatti einstaklinga vegna vaxtabóta. (OH: Ég sagði það ekki.) Bíddu, hv. þingmaður fær að svara mér á eftir. Látum það samt liggja á milli hluta. Staðreyndin er sú að okkur gengur mjög vel og staðreyndin er sömuleiðis sú að hvergi eða óvíða er meiri jöfnuður en á Íslandi. Það þýðir ekki að ekki búi einhverjir hópar og einstaklingar við kröpp kjör. Við þurfum að grípa þá og það er þessi ríkisstjórn að gera. Menn geta ekki rætt um húsnæðisstuðning eingöngu út frá vaxtabótakerfinu eins og hv. þingmaður gerir sem horfir algjörlega fram hjá því sem er verið að styrkja í félagslegu húsnæði. Það er allt í lagi að halda því til haga, hv. þingmaður, og minnast aðeins á það hvað ríkisstjórnin er að gera í þeim efnum. Það væri líka allt í lagi að minnast á það sem er verið að gera fyrir ungt fólk, gera því kleift að eignast sína fyrstu íbúð með því að nýta t.d. séreignarsparnað sinn í að byggja upp eigið fé í íbúð.

Þegar allt er tekið til, séreignarsparnaðurinn, vaxtabótakerfið, aðgerðir í félagslega íbúðakerfinu þar sem núna er meira að segja verið að stofna nýjan sjóð eingöngu í þeim efnum, hygg ég að dómurinn verði sá að engin ríkisstjórn hafi gert meira í húsnæðismálum en ríkisstjórnin sem nú situr. Á að gera meira? Já, en engin ríkisstjórn hefur gert meira.

(Forseti (ÞorS): Minnt er á að hv. þingmenn beini orðum sínum að forseta.)