150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki alveg tilbúin að kvitta undir að engin ríkisstjórn á Íslandi hafi gert meira í húsnæðismálum. Ef við horfum bara á húsnæðisbæturnar og leggjum saman það sem er gert með almennu íbúðirnar, leiguíbúðirnar og vaxtabæturnar er summan bara sú sama. (ÓBK: Séreignarsparnaðurinn.) Það er ekkert verið að bæta neinu við. Séreignarsparnaðurinn nýtist sannarlega ríku ungu fólki en ekki eins vel hinum sem eru með lægri tekjurnar. Og það er ekki þannig, herra forseti, að þessi ríkisstjórn grípi þá sem eru verst settir á Íslandi. Það er bara þvæla. Hvernig er staðan hjá öldruðum og öryrkjum? Hvernig er staðan hjá öryrkjum sem þurfa að treysta á greiðslur frá Tryggingastofnun? Þeir fengu samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar í gær 3,5% hækkun frá 1. janúar 2020. Bilið á milli þeirra og þeirra sem eru með lægstu launin verður á árinu 2020 80.000 kr. Launaþróunin er miklu hærri sem er gott en við hér eigum að sjá um að grípa þá sem eru fátækastir og hafa ekki valið sína stöðu. Það er ekki verið að gera það.

Herra forseti. Þessi ríkisstjórn passar vel upp á þá allra ríkustu í landinu. Ég er ánægð með að verkalýðsfélögin skyldu hafa náð í gegn breytingu á skattkerfinu þannig að þeir sem eru með lægri tekjurnar borgi lægri skatt. Hins vegar vantar hátekjuskattinn. Við horfum ekki á þá sem eru í langefsta laginu og ég fór ágætlega yfir það í mínu nefndaráliti hvernig staða þeirra er (Forseti hringir.) og hvernig hún hefur vaxið í skjóli þessarar ríkisstjórnar.