Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

4. mál
[17:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki. Nefndin fjallaði um málið og fékk til sín marga góða gesti frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Bankasýslu ríkisins og Samtökum fjármálafyrirtækja, auk þess sem umsagnir komu frá sömu aðilum og fleirum.

Samkvæmt gildandi lögum nemur þessi sérstaki skattur á fjármálafyrirtæki 0,376% af heildarskuldum skattskylds aðila umfram 50 milljarða í lok tekjuárs. Með frumvarpinu er lagt til að skatthlutfallið lækki í 0,145% í fjórum skrefum þannig að skatthlutfallið verði að lokum 0,318% við álagningu árið 2021, 0,261% við álagningu 2022, 0,203% við álagningu 2023 og loks 0,145% við álagningu 2024 og síðar.

Í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið kemur fram um skatta á íslensk fjármálafyrirtæki samanborið við skatta í öðrum löndum, í Skandinavíu, Hollandi, Írlandi og Bretlandi, að álögurnar eru umtalsvert hærri á Íslandi.

Meiri hlutinn bendir á að verulegur munur á sértækum sköttum og opinberum gjöldum hefur neikvæð áhrif á samkeppnishæfni íslenskra fjármálafyrirtækja. Sú skerta samkeppnisstaða kemur fyrst og fremst niður á litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem eiga ekki kost á að leita sér fjármögnunar í erlendum bönkum eða með skuldabréfaútboðunum.

Þá er það mat meiri hluta nefndarinnar að þessi sérstaka skattheimta skekki innbyrðis samkeppnisstöðu á íslenskum lánamarkaði þar sem aðeins hluti lánveitenda þarf að greiða skattinn.

Í umsögn Bankasýslu ríkisins er vakin athygli á því hvaða áhrif óbreytt skattlagning hafi á verðmæti eignarhluta ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum en stofnunin hefur unnið að undirbúningi fyrir sölu á eignarhlutum ríkisins í samræmi við lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Í umsögninni segir m.a.:

„Meginreglur samkvæmt lögunum við sölumeðferð eru opið söluferli, gagnsæi, hlutlægni og hagkvæmni en með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs fyrir eignarhluti. Að mati stofnunarinnar er það mjög mikilvægt, út frá sjónarmiðum umsýslu- og eigandahlutverksins, að opinbert gjaldaumhverfi fjármálafyrirtækja sé stöðugt og fyrirsjáanlegt um töluverðan tíma. Miklar og örar breytingar á skattumhverfi stuðla ekki að trausti og trúverðugleika fjármálamarkaðarins og geta haft neikvæð áhrif á eftirspurn og markaðsverð, sem íslenska ríkið getur mögulega fengið fyrir eignarhluti sína í fjármálafyrirtækjum, ef og þegar til sölu kemur.“

Samkvæmt mati Bankasýslunnar mun verðmæti eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka og Landsbanka aukast um nær 44 milljarða ef sérstakur skattur verður lækkaður í 0,145% af heildarskuldum líkt og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Að lokum bendi ég á að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að unnið verði að frekari skilvirkni í fjármálakerfinu með það að leiðarljósi að lækka kostnað neytenda. Ljóst er að heimili og fyrirtæki greiða a.m.k. stóran hluta sértæka bankaskattsins í formi hærri útlánavaxta og lægri innlánsvaxta. Meiri hlutinn leggur áherslu á að fylgt verði eftir að fyrirhuguð lækkun sérstaka bankaskattsins í þrepum skili sér í hagstæðari vaxtakjörum fyrirtækja og heimila, auki þar með ráðstöfunartekjur almennings og ýti undir fjárfestingu og nýsköpun.

Undir nefndarálitið rita fulltrúar meiri hlutans, Óli Björn Kárason formaður, Brynjar Níelsson framsögumaður, Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir.