Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

4. mál
[17:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get í sjálfu sér tekið undir hvert orð hjá hv. þingmanni. Í íslensku samfélagi eru smáskammtalækningar meginreglan.

Samkomulag hefur náðst í ríkisstjórn um þetta og ég tel mikið, gott og stórt skref að ná þó því. Það var ekki sjálfgefið. Margir í samfélaginu, ekki bara á þingi heldur úti um allt samfélagið, líta svo á að með því að lækka þennan skatt eða afnema hann sé verið að hafa fé af fólki í landinu. Eins og í svo mörgu öðru halda menn þegar við ræðum um atvinnulífið að um leið og dregið er úr álögum á einstaklinga og fyrirtæki séum við að afsala okkur tekjum. Það er hinn raunverulegi vandi í kringum allar skattalækkanir sem þarf að gera, sem kannski ég og hv. þingmaður og margir fleiri eru sammála um, að það sé til hagsbóta fyrir almenning.

Þetta er hin pólitíska glíma sem við tökum á hverjum einasta degi í íslenskri pólitík. Fólk horfir þannig á málið að við séum að afsala okkur tekjum í sameiginlega sjóði. Það þarf meiri háttar hugarfarsbreytingu til að ná því einhvern veginn á réttan kjöl. Þetta er kannski ágætisleið til þess. Mér fannst skárra að taka þátt í þessu, að vísu með talsverðum þrýstingi á eigin ríkisstjórn um að ganga hraðar í þetta en um það er bara því miður ekki samkomulag. Þetta náðist þó, hv. þingmaður.