150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

fundur utanríkisráðherra Íslands og Rússlands.

[15:02]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra átti í síðustu viku fund með starfsbróður sínum, herra Sergey Lavrof, utanríkisráðherra Rússlands. Þessi fundur fór fram í Moskvu. Þar var m.a. rætt viðskiptabann Rússa á ákveðnar matvælategundir frá Vesturlöndum, þar með talið nær allar sjávarafurðir frá Íslandi. Rússar settu þetta viðskiptabann á sem svar við viðskiptahindrunum Vesturlanda gegn þeim í kjölfar vígaferla í Úkraínu og innlimunar Krímskaga í Rússland. Sala á sjávarafurðum okkar til Rússlands hrundi algjörlega í kjölfar þessa. Á einni nóttu tókst þáverandi utanríkisráðherra, Gunnari Braga Sveinssyni, og ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem þá var, að rústa farsælum viðskiptasamböndum sem skiluðu okkur alls 34 milljörðum kr. árið 2014. Í fyrra var heildarútflutningur okkar til Rússlands sagður 4 milljarðar og þá aðallega í formi tæknibúnaðar til rússnesks sjávarútvegs því að Rússar hafa notað þetta viðskiptastríð sitt til þess að byggja upp sinn eigin útveg til að verða sjálfum sér nógir um sjávarafurðir í framtíðinni. Flokkur fólksins hefur ávallt verið andsnúinn því að fara í slíkt viðskiptastríð við Rússa enda ljóst að byrðar okkar Íslendinga vegna þessa hafa verið okkur mjög þungbærar og hlutfallslega miklu meiri en annarra vestrænna þjóða. Undirritun utanríkisráðherra Íslands og Rússlands í síðustu viku vekur vonir um að þessu ófremdarástandi fari brátt að linna. Ég kem því hér upp, virðulegi forseti, til að biðja hæstv. utanríkisráðherra um að upplýsa þingið í stuttu máli um það hvernig hann meti stöðuna með tilliti til þessa tilgangslausa viðskiptastríðs nú í lok Moskvufundarins.