Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

ráðningarfyrirkomulag hjá RÚV.

[15:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ástæða þess að ráðherrann sem hér stendur sendi fyrirspurn á stjórn RÚV er sú að það virtist vera uppi ágreiningur eða lagaleg óvissa um það hvort málið væri í réttu ferli. Mér finnst mjög brýnt að við veitum ákveðið aðhald eins og við mögulega getum og að við förum eftir lögum. Mér er það ljúft og skylt.

Hér sé ég að samkvæmt persónuverndaryfirlýsingu stofnunarinnar virðist sem hún hefði átt að birta þennan lista samkvæmt þeirri stefnu sem RÚV er með. Ég get bara staðið hér og á ekkert erfitt með að segja að ef ég þekki ekki hlutina og veit ekki nákvæmlega hvernig málið er vaxið finnst mér það bara skylda mín að kanna hvernig það er. Það snýst ekkert um að kalla einhvern inn á teppið til sín. Þetta snýr bara að því hvort ég geti fengið upplýsingar um það hvers vegna hlutirnir eru gerðir eins og þeir eru ef það er ekki í samræmi við stefnu RÚV. Ég bara vona að fleiri, þar á meðal hv. þingmaður, temji sér góð og öguð vinnubrögð og fari yfir málið.