150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

desemberuppbót lífeyrisþega.

[15:39]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég vil líka spyrja í framhaldi af því að þarna er um að ræða þannig hóp að við erum að tala um að einhver fái innan við 1.900 kr. í jólabónus á sama tíma og við fáum að halda okkar jólabónus, fyrir utan skatta. Viðkomandi er búinn að borga skatt og skerðingu. Það getur ekki verið eðlilegt. Ég er líka að spyrja: Nú skildist mér að verið væri að samþykkja í lögum að 10.000 kr. færu skatta- og skerðingarlaust — er það til allra, öryrkja og eldri borgara? Og hvenær á að greiða þetta? Ég veit að þetta er ekki komið út en ég veit að fólk bíður eftir þessu vegna þess að einstaklingar hafa sagt mér að ef þeir fengju óskertan jólabónus myndu þeir nota hann til að leysa út lyf, það er svo hart í ári. Ég vona heitt og innilega að þetta verði tekið til endurskoðunar og allir fái óskertan jólabónus, bara skattaðan eins og allir aðrir fá en ekki skertan með lífeyrissjóði.