150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

skráning einstaklinga.

101. mál
[16:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér er lagt til að heimild til að safna saman skráningu í trú- og lífsskoðunarfélög verði fjarlægð. Hún fylgir samt 5. tölulið sömu breytingartillögu sem veitir þjóðskrá tímabundna heimild til að skrá þetta á meðan verið er að finna út úr því hvernig við getum fellt brott lög um sóknargjöld, þ.e. til 1. janúar 2021. Þetta er það atriði sem ég myndi setja mig hvað mest upp á móti, að trúarbrögð fólks, lagatæknilega séð skráning í trú- og lífsskoðunarfélög, séu skráð hjá þjóðskrá, nokkuð sem ég er mjög á móti. Ef þessi breyting verður felld, sem mér sýnist hún verða, mun ég sitja hjá við afgreiðslu 6. gr. af þeim ástæðum.