150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

skráning einstaklinga.

101. mál
[16:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða svolítið skrýtið fyrirkomulag sem ég held að sé óumdeilt að sé skrýtið og það er að Tryggingastofnun ríkisins beri að greiða einn tíunda af rekstri þjóðskrár af ástæðum sem hafa aldrei verið útskýrðar almennilega. Þetta þótti heppilegt á einhverjum tíma.

Nú má vel vera að þetta flæki málið fyrir kollega mínum, hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni í fjárlaganefnd, við að finna út úr því hvernig eigi að breyta því til hvaða aðila fjármagnið fer. Ég skil það eftir í höndunum á þeim góða hv. þingmanni. Lagabreytingin sem þörf er á í þessum lögum er mjög einföld, hún er sú að afnema þetta ákvæði. Restin yrði útkljáð í fjárlögum og jafnvel eftir atvikum í fjáraukalögum.

Þetta varðar einnig 4. tölulið sömu breytingartillögu. Það er sem sagt sama efni, að fjarlægja þessa undarlegu tíund frá Tryggingastofnun ríkisins til þjóðskrár, þannig að sama skýring gildir um bæði 3. og 4. tölulið breytingartillögunnar.