150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[16:57]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við í Viðreisn styðjum þessa skattbreytingu. Hún er mun betur í takti við hugmyndir Viðreisnar um nauðsynlegar breytingar á skattkerfinu en upprunalegar hugmyndir þessarar ríkisstjórnar voru, enda er þessi skattbreyting gerð að kröfu verkalýðshreyfingarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga. Það er jákvætt að sjá að verið er að lækka skattbyrði á (Gripið fram í: Alla) þá sem minnst mega sín í samfélaginu. Það hefði hins vegar verið óskandi að svigrúm hefði verið til að ganga hraðar til verks en raun ber vitni en útgjaldagleði þessarar ríkisstjórnar kemur í veg fyrir að hægt hefði verið að hrinda þeim skattalækkunum í framkvæmd að fullu strax á næsta ári. Við styðjum engu að síður góð verk og segjum því já við breytingunni í heild.