150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[16:58]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég fagna því að þetta mál sé komið til afgreiðslu því að hér er verið að innleiða kerfisbreytingar á tekjuskattskerfinu sem munu koma hinum tekjulægstu best. Þessar breytingar byggja á mjög vandaðri vinnu þar sem hugað var að því hvernig við gætum annars vegar uppfyllt loforð ríkisstjórnarinnar um að lækka skatta og tryggt um leið að það gagnaðist best þeim sem mest þurfa á því að halda.

Sömuleiðis vil ég fagna því sem hér er lagt til, hækkun barnabóta, sem er í takt við áherslur þessarar ríkisstjórnar, að koma til móts við fjölskyldufólk í landinu, ekki síst ungt fólk með börn, enda sýna öll gögn okkur að það skiptir máli að koma til móts við þann hóp. Þannig að þetta er gott mál, það er vel undirbúið og vissulega skiptir líka máli að það þjónaði sínu hlutverki í því að tryggja frið á vinnumarkaði við undirritun lífskjarasamninga. Ég vonast til þess að sjá sem breiðasta samstöðu í þessum sal um þetta góða mál.