150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:02]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ef hv. þm. Óli Björn Kárason færi nú yfir örlög breytingartillagna frá minni hluta á síðustu tveimur árum myndi hann kannski átta sig á því af hverju við erum ekki alltaf að ómaka okkur við að gera breytingartillögur. (Gripið fram í.) Hins vegar var það sem vakti athygli mína það að hæstv. forsætisráðherra talar í sífellu um að þessar breytingar komi best út fyrir þá sem lægstu launin hafa. Þá er hún komin með algjörlega nýja túlkun sem hefur verið áberandi hjá henni að undanförnu, að hugsa þetta alltaf hlutfallslega. Nú er það bara þannig að bensínlítrinn, mjólkurlítrinn og brauðið kosta bara nákvæmlega jafn mikið fyrir þann sem er með 320.000 og hinn sem með 1.400.000–1.500.000 kr. Óréttlætið felst í því að setja ekki þriðja þrepið frekar á okkur sem raunverulega getum borið þetta og lækka enn meiri skatta á þá sem lægstu launin hafa.