150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[17:04]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Vegna þeirra áhyggna sem hæstv. fjármálaráðherra og hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar hafa af skorti á álitum frá minni hluta er kannski full ástæða til þess að spara pappírinn hér í þessum sal. Hér er staðan mjög einföld: Það er búið að samþykkja fjárlög. Það væri óábyrgt af okkar hálfu að leggja fram einhverjar breytingartillögur sem græfu undan útgjaldaforsendum fjárlaganna. Því eru ekki breytingartillögur lagðar fram af okkar hálfu. Við myndum vissulega vilja ganga hraðar til verks við skattalækkun en það myndi þá, að samþykktum fjárlögum, brjóta gegn afkomumarkmiðum ríkissjóðs fyrir næsta ár. Slíkar tillögur væru ekki ábyrgar. En af því að hv. þm. Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, stærði sig af því og fór í þá stærðfræðileikfimi að leggja saman yfir allt kjörtímabilið áhrif skattalækkana þessarar ríkisstjórnar, sem eru óveruleg, er kannski ágætt að hafa það í huga að útgjöld þessarar ríkisstjórnar munu slaga í 4.000 milljarða á þessu kjörtímabili. Geri aðrir betur.