150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 um breytingu á bókun 31 við EES-samninginn.

374. mál
[17:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019, um sameiginlegar efndir samkvæmt Parísarsamningnum fyrir árið 2021–2030. Í ákvörðuninni er að finna fimm gerðir sem varða samkomulag Íslands, Noregs og Evrópusambandsins um sameiginleg markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 2021–2030. Gerðirnar eru felldar inn í bókun 31 við EES-samninginn um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins.

Virðulegi forseti. EES-samningurinn hefur að geyma ákvæði er snúa að umhverfismálum og vernd umhverfisins. Það getur verið matsatriði hvort einstakar ESB-gerðir á sviði umhverfismála falli undir EES-samninginn eður ei. Gerðir sem varða viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, ETS, hafa þegar verið teknar upp í EES-samninginn og taka EFTA-ríkin innan EES fullan þátt í ETS-kerfinu. Hins vegar hafa aðrar ESB-gerðir vegna skuldbindinga í loftslagsmálum almennt verið taldar falla utan efnislegs gildissviðs EES-samningsins og hafa þar af leiðandi ekki verið teknar upp í hann.

Í þessu máli hafa Ísland og Noregur valið að starfa með ESB að sameiginlegum efndum samkvæmt Parísarsamningnum fyrir árin 2021–2030. Því eru gerðirnar felldar inn í bókun 31 við EES-samninginn, þ.e. um samvinnu utan marka fjórþætta frelsisins, í stað XX. viðauka samningsins, um umhverfismál. Meginmunurinn á þessum tveimur leiðum felst í því að með því að gerðirnar séu felldar inn í bókun 31 verða Ísland og Noregur ekki talin hafa fallist á að efni gerðanna falli innan efnislegs gildissviðs EES-samningsins og þar með er ekki útvíkkuð túlkun á gildissviði samningsins frá því sem nú er. Með því að fella gerðirnar í bókun 31 má líta á upptöku þeirra í EES-samninginn sem þátt í samstarfsverkefni sem Ísland og Noregur gætu ákveðið að halda ekki áfram með eftir árið 2030, ef þau kysu svo.

Innleiðing gerðanna kallar á lagabreytingar hér á landi með breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012. Af þeim sökum setti Ísland svonefndan stjórnskipulegan fyrirvara þegar sameiginlega EES-nefndin tók ákvörðun um að þessar gerðir skyldu felldar inn í EES-samninginn. Það þýðir að þessi ákvörðun tekur ekki gildi fyrr en Ísland hefur aflétt fyrirvaranum. Það er ekki gert fyrr en að fengnu samþykki Alþingis í formi þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Virðulegi forseti. Nánar um ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2019 er það að segja að samkvæmt samkomulaginu eru felldar inn í EES-samninginn tvær lykilgerðir sem fjalla annars vegar um losun utan viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir, ETS, og hins vegar um losun og kolefnisbindingu sem tengist landnotkun. Með þessu fyrirkomulagi verður Ísland með samþykkt markmið innan EES-samningsins og Parísarsamningsins en ekki með tvíþættar skuldbindingar og losunarbókhald. Ísland og Noregur hafa nú þegar tekið upp hluta af regluverki ESB í loftslagsmálum í gegnum EES-samninginn. Ríkin hófu þátttöku í ETS árið 2008 en um 40% losunar Íslands falla þar undir, einkum frá fyrirtækjum í stóriðju. Ísland tók svo þátt í sameiginlegu markmiði með ESB-ríkjunum á seinna skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar 2013–2020 samkvæmt tvíhliða samningi.

Virðulegi forseti. Eftir að Parísarsamningurinn var samþykktur árið 2015 sendi Ísland, eins og önnur aðildarríki samningsins, inn markmið um landsákvarðað framlag um samdrátt í losun til ársins 2030. Ísland sagðist myndu taka þátt í sameiginlegu markmiði Evrópuríkja um 40% samdrátt í losun til ársins 2030 með fyrirvara um að samkomulag næðist við ESB um þátttöku í því. Noregur sendi sambærilegt markmið. Fyrirkomulagið á þessu samstarfi er þannig að innri reglur ákvarða hlutdeild og skyldur hvers ríkjanna 30 en gagnvart Parísarsamningnum eru ríkin með eitt sameiginlegt framlag.

Gerð er nánari og ítarlegri grein fyrir málinu í meðfylgjandi tillögu til þingsályktunar.

Ég legg til, virðulegur forseti, að að aflokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.