150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 128/2019 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

428. mál
[17:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 128/2019, sem mælir fyrir um reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2017/352 frá 15. febrúar 2017 um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og sameiginlegar reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir, verði tekin upp í EES-samninginn. Í reglugerð 2017/352 er mælt fyrir um fjárhagslegt gagnsæi í rekstri þeirra hafna sem eru hluti af samevrópska flutninganetinu, milli hafnarstjórna og þeirra sem veita þjónustu í höfnum, jafnræði, samráð við hagsmunaaðila og notendur og skilyrði fyrir veitingu þjónustu í höfnum. Fram kemur hvaða kröfur má gera til veitenda hafnarþjónustu og skilyrði fyrir því að nýir aðilar fái að veita slíka þjónustu. Fjallað er um sjónarmið sem réttlæta fjöldatakmarkanir á þeim sem veita þjónustu í höfnum, möguleika á að leggja almannaþjónustukvöð á þjónustuviðskipti, réttindi starfsmanna hafna og þjálfun starfsfólks.

Innleiðing reglugerðarinnar kallar á breytingar á hafnalögum, nr. 61/2003. Einnig þarf að gera reglugerðarbreytingu á reglugerð um hafnir eða gera nýja reglugerð um efnið. Frumvarpsdrög eru í smíðum hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti sem fer með þennan málaflokk.

Ég legg til, virðulegur forseti, að að aflokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.