150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Segja má ýmislegt um verk ríkisstjórnarinnar. Ég líki þeim helst kannski við að sópa gólf, það þarf náttúrlega að sópa gólfið af og til, þetta er ekki miklu merkilegra en það.

Í Fréttablaðinu í dag birtist greinin Landráð? eftir Kára Stefánsson. Hún lýsir kannski máli sem þyrfti virkilega að vinna betur að, máli sem er búið að vera lengi í veseni og ekkert verið gert með. Þar er vísað í skýrslu Verðlagsstofu skiptaverðs þar sem samanburður er gerður á verði makríls á Íslandi og í Noregi, sem sýnir 227% hærra verð fyrir makríl sem er landað í Noregi miðað við á Íslandi. 300% munur árið 2018. Afleiðingarnar eru alvarlegar fyrir sjómenn, fyrir sveitarfélög og fyrir alla landsmenn. Það er alltaf talað um sjálfbærni íslensks sjávarútvegs og hvernig hann er ekki ríkisstyrktur og ýmislegt svoleiðis en heimildir eru samt gefnar. Og svo eru dæmin um þennan verðmismun: Hvað er það annað en styrking þegar allt kemur til alls?

Þrátt fyrir allar þessar ábendingar er ekkert gert. Aftur og aftur koma ábendingar líkt og kemur fram í grein Kára Stefánssonar sem er mér ákveðin hvatning, með leyfi forseta:

„… verður að rannsaka þetta ofan í kjölinn [… ] Alþingi verður að sjá til þess að það verði gert fljótt og á heiðarlegan máta.“ Þetta er ekki ný ábending. Við höfum séð þetta í mörg, mörg ár en aldrei hefur neitt verið gert. Það lýsir, ef eitthvað er, aðgerðaleysi ríkisstjórna undanfarinna ára.

Virðulegi forseti. Það er ekki einu sinni verið að sópa gólfið þegar kemur að þessu, gleymst hefur að fara í hornin, sem eru mikilvægustu staðirnir, þar sem allt rykið safnast upp og því er leyft að safnast upp og safnast upp á kostnað okkar allra. (Gripið fram í: … allir að sópa gólf …)