150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Við tölum um það við eldhúsborðið, við tölum um það á vinnustaðnum. Við tölum um það úti um allt. Er spilling? Fáum við fullt verð fyrir aflann? Er svindlað á vigtinni? Hvernig stendur á því að hlutirnir eru eins og þeir eru? En það er einn sem festir það á blað og ég las það í morgun, það er Kári Stefánsson. Hann náttúrlega setur þetta allt innan gæsalappa eins og gengur. Við verðum að stíga varlega til jarðar. En þetta er nú það sem við almennt tölum um þannig að það er nú eins gott að láta það flakka. Hann segir:

„Á síðasta ári var meðalverð sem fékkst fyrir íslenska makrílinn 65% lægra en fyrir þann norska. Það var sem sagt prýðilegt tækifæri fyrir þessi erlendu fyrirtæki í eigu íslenskrar útgerðar til þess að selja makrílinn áfram ...“

Íslensk fyrirtæki eiga gjarnan fyrirtæki í útlöndum og selja sjálfum sér aflann hér á allt að 300% lægra verði en heimsmarkaðsverð á makríl. En svo væri gaman að vita á hvað þeir selja hann frá sér, fyrirtækjum sínum erlendis. Hér stendur og ég vísa beint í greinina, með leyfi forseta:

„Ef það sem að ofan greinir er rétt þá eru afleiðingar þess að útgerðirnar hafi gerst sekar um þjófnað, skattsvik og peningaþvætti:

1. Sjómenn sem veiddu makrílinn voru hlunnfarnir svo að um munar. Það má leiða að því rök að útgerðirnar hafi stolið af þeim stórfé.

2. Útgerðirnar stálu ekki bara fé af sjómönnunum heldur líka sveitarfélögunum þar sem þær greiddu sín opinberu gjöld.

3. Útgerðirnar hlunnfóru sveitarfélögin með því að greiða ekki hafnargjöld í samræmi við raunverulegt verðmæti aflans.

4. Útgerðirnar gáfu erlendum félögum, sem þær áttu, hluta af tekjum sínum og greiddu þar af leiðandi ekki af þeim skatt.

5. Útgerðirnar stunduðu peningaþvætti í gegnum félögin, sem þær áttu í útlöndum. Útgerðirnar notuðu félögin til þess að fela tekjur og koma þeim undan skatti.“

Nú veit ég ekki hvort þetta er eins og hér kemur fram. En hvað um það. Skýrsla Verðlagsstofu skiptaverðs bendir hins vegar til þess að svo gæti verið. (Forseti hringir.) Ég segi ekki annað en að það er kominn tími til þess að við hér á hinu háa Alþingi, löggjafinn sjálfur, hysjum upp um okkur buxurnar og förum að taka á þessum málum sem alþjóð er kunnugt um að hafa hugsanlega verið við lýði hér lengi.