150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Þessa vikuna safnast stjórnvöld alls staðar að úr heiminum saman í Madríd til að ræða loftslagsmál. Metnaðinn vantar svo sem ekki í ræðum og riti en hann virðist síður rata í áætlanir og aðgerðir. Þetta kemur skýrt fram í skýrslu sem Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna birti í liðinni viku. Skýrslan ber hið lýsandi heiti, með leyfi forseta, Emissions Gap Report, enda sýnir hún svart á hvítu það gap sem er á milli metnaðar í orði og á borði.

Ef taldar eru saman þær skuldbindingar og þær áætlanir sem ríki hafa gert í kjölfar Parísarsáttmálans stefnir í 3,2°C hlýnun á öldinni. Þetta er víðs fjarri þeim 1,5–2°C sem stefnt er að. Losun gróðurhúsalofttegunda þarf samkvæmt skýrslunni að minnka um 7,6% að meðaltali á hverju ári til 2030 til að koma í veg fyrir hlýnun jarðar upp á meira en 1,5°C. Hefði hins vegar verið brugðist við fyrir áratug hefði nægt að minnka losun um 3,3% árlega. Þetta er kostnaðurinn við að tefja nauðsynlegar aðgerðir. Þær verða sársaukafyllri. Þessi úttekt Umhverfisstofnunarinnar leiðir síðan hugann að stöðunni hér á landi. Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, svo langt sem hún nær, er hvorki magnbundin né kostnaðarmetin nógu skýrt. Annað árið í röð liggur fyrir þinginu samgönguáætlun sem ekki hefur verið metin út frá áhrifum á loftslagsmál. Úr þessu þarf að bæta. Þetta vekur líka upp þá spurningu hvort óháður aðili þurfi að rýna metnað stjórnvalda í loftslagsmálum, ekki ósvipað og fjármálaráð rýnir fjármálaáætlun hvers árs, því að það þarf að tryggja að metnaður stjórnvalda hvers tíma sé ekki bara í orði heldur líka á borði.