150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

tollalög o.fl.

245. mál
[14:23]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við í Viðreisn styðjum þetta mál heils hugar þó að vissulega hefði mátt standa betur að því. Eins og komið hefur fram hér í umræðunni má setja út á ýmislegt við undirbúning þessa máls en hins vegar er brýnt að ráðist sé í hagræðingu hjá hinu opinbera. Þetta er dæmi um slíkt mál. Við erum enn með liðlega 160 ríkisstofnanir sem er allt of mikið. Drjúgur partur þeirra er með tíu starfsmenn eða færri og við höfum ítrekað séð gögn þess eðlis að slíkar stofnanir séu einstaklega óhagkvæmar og dýrar í rekstri. Þess vegna hvet ég ríkisstjórnina eindregið til dáða í að ganga lengra í þeim efnum en auðvitað að vanda undirbúning. Það er kannski eitt í þessu tiltekna máli sem ætti að hafa sérstaklega í huga. Þegar svona stór sameining á í hlut er fjármagn einfaldlega allt of naumt skammtað í upphafi til að hægt sé að tryggja að sameiningin skili tilætluðum árangri. Það er það sem sem ég óttast helst í þessu en við styðjum þetta mál heils hugar.