150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[14:35]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Svo vill til með þetta mál að það var fært framar á dagskrá við 2. umr., mjög mörgum að óvörum, og þess vegna var ekki hægt að taka til máls um það við þá umræðu sem hefði þó verið brýn ástæða til. Því hef ég kvatt mér hljóðs við 3. umr. um málið.

Málið er komið inn í þingið vegna vandræðagangs í stjórnkerfinu, vegna þess að hæstv. forsætisráðherra treystir sér ekki til að halda áfram því ferli sem hún hafði sjálf hafið og hendir málinu nú inn í þingið og vill að þingið taki samábyrgð með henni á afdrifum þess. Í sjálfu sér væri hægt að verða við því og taka þátt í því með hæstv. forsætisráðherra að taka þannig á málinu ef von væri til þess að því lyki með þeim hætti. En það er engin hætta á því að svo verði vegna þess að það standa enn yfir málaferli og eru boðuð málaferli varðandi þetta mál. Þegar ágreiningur rís er náttúrlega langbest að leiða hann til lykta fyrir dómstólum. Eins sárt og erfitt og langvinnt og þetta mál er búið að vera finnst alla vega þeim sem hér stendur að það þurfi að klára það með einhverjum sóma. Það þurfa að vera einhver lok í þessu máli. Svo er ekki þó að við samþykkjum málið í dag. Það verður ekki svo, herra forseti.

Ég hvet þá alþingismenn sem ekki hafa þegar lesið bréf sem kom sem umsögn við þetta mál fyrir 2. umr. frá þremur af fjórum mönnum sem sátu saklausir í 105 daga í einangrun til að lesa það. Þeirra er í sjálfu sér í engu getið í þessu frumvarpi. Það er heldur engin hugsun, þótt það eigi ekki heima í þessu frumvarpi, það veit ég vel, og heldur engin umræða búin að vera um þær þjáningar og þann miska sem fjölskyldur Geirfinns Einarssonar og Guðmundar Einarssonar hafa þolað í þessu máli því að þeir hafa ekki sést í 45 ár og verða því að teljast hin sönnu fórnarlömb í þessu máli. Fjölskyldur þeirra og einkalíf hefur verið dregið fram í dagsljósið til þess að selja blöð og búa til sjónvarpsþætti sem er til vansa og til skammar.

Það sem er kannski verst við þetta mál núna er að framkvæmdarvaldið er að hrifsa það úr höndum dómsvaldsins. Við höfum þríeina skiptingu á Íslandi um stjórn landsins þannig að fordæmið sem er verið að setja núna með því að taka þetta mál úr höndum dómstóla og láta Alþingi ákveða um þetta mál er fordæmi sem ég mun ekki vilja taka þátt í, svo það sé sagt. Ég óttast mjög, þó að maður náttúrlega voni að mál af þessum toga komi aldrei aftur upp á Íslandi getur maður aldrei fortekið það, en ég spyr menn hvað þeir ætli að gera næst þegar mál kemur upp þar sem vísað verður til þessa fordæmis, að þetta mál hafi verið tekið af dómstólum og sett til atkvæða á Alþingi. Hvernig ætla menn að bregðast við því þá, hvernig svo sem þau mál kunna að verða vaxin ef þau koma upp? Þetta eru eftirköst sem eru óæskileg og Alþingi ætti ekki að láta hafa sig út í slíkt.

Ég veit ekki af hverju Alþingi ætti að taka uppgjöf hæstv. forsætisráðherra í þessu máli og reyna að lagfæra hana eins og hæstv. forsætisráðherra, sem er því miður ekki hér til að hlýða á orð mín, helst hefði kosið. Ég vara við þessu. Ég vara mjög við því að þetta verði samþykkt. Ég bendi mönnum aftur á að hafa það í huga að málinu lýkur ekki með því að við samþykkjum þetta mál og tökum afstöðu til þess. Því lýkur því miður ekki hér, það heldur áfram að hanga yfir okkur öllum meðan málaferli standa. Það getur þess vegna tekið drjúgan tíma. Það sem líka er vont við þessa kúvendingu er að það má segja að ríkisstjórnin hafi, með því að leggja málið fyrir, kippt fótunum undan settum ríkislögmanni í þessu máli sem hafði unnið það eftir því sem ég best veit í algerum trúnaði og af alkunnri þekkingu. Síðan er skipt um hest í miðri á og ríkislögmanni er sagt: Þetta er alveg ómögulegt og við hættum við þetta, hendum þessu inn í þingið. En að sjálfsögðu halda málaferlin áfram, nema hvað embætti ríkislögmanns er beyglað eftir vegna þess að því hefur verið sýnt vantraust með málatilbúnaðinum eins og hann er hér.

Ég ítreka að mér þykir mjög miður að málinu skyldi hafa verið skutlað framar á dagskrána án þess að menn yrðu varir við það í 2. umr. Hefði það ekki verið gert hefði umræðan hér í 3. umr. verið óþörf en ég brýni menn til þess að hugsa um afleiðingar þess að þetta mál verði samþykkt.

Það er eitt atriði í viðbót sem ég vil nefna að alla vega sá sem hér stendur treystir sér ekki til að gera. Það er verið að gera okkur alþingismönnum nú að ákvarða einstaklingum bætur, í krónutölum. Alþingismenn eiga með þessu frumvarpi að verðleggja líf manna sem hafa orðið fyrir miska af málinu. Ég segi aftur: Hvernig í veröldinni á að vera hægt að setja Alþingi í þá stöðu að ákvarða bætur til einstaklinga? Það er ekki verkefni Alþingis, alls ekki. Það veit sá sem allt veit að ef slíkar bætur sem við værum að ákvarða ættu að fara eitthvert annað en til einstaklinga, þá er ég hræddur um að það yrði verulegur kurr í salnum.

Herra forseti. Í stuttu máli: Ég vara við því að menn samþykki þetta mál. Ég hvet menn til þess að íhuga það mjög vel. Ég hvet menn til að hafa í huga að málinu lýkur ekki, það heldur áfram. Það verður ekki betra, verður ekki viðráðanlegra. Það verður ekki auðleysanlegra. Þetta mál er vont, herra forseti.