150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[14:43]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál núna. Ég hélt hér ræðu við 1. umr. Það fór fyrir mér eins og hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni, við misstum af málinu hér í 2. umr. Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði áður. Ég tek undir það með hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni að þetta er ekki gott mál. Það er ekki gott mál að stjórnmálin yfirtaki mál af þessu tagi. Þau hafa að vísu gert það frá upphafi og þeir sem eru eldri hér í salnum muna kannski hvernig þetta mál var pólitískt í upphafi, ég man það, og það er það enn. Öll meðferð þessa máls hefur verið í höndum stjórnmálamanna. Mér finnst algerlega furðulegt hve mörgum þingmönnum finnst það bara í lagi, sjá ekkert athugavert við það; sjá ekkert athugavert við það fordæmi sem verið er að gefa, hvaða afleiðingar það getur haft um þrískiptingu ríkisvaldsins o.s.frv. Á tyllidögum tölum við alltaf um mikilvægi þeirrar þrískiptingar en við horfum fram hjá þessu öllu af því að við teljum okkur vera svo góð og réttlát og skynsöm í þessu máli. Það er bara rangt. Það sem er sameiginlegt með okkur hér í þinginu er að við erum öll gjörsamlega úti á túni í þessu máli. Það finnst mér mjög skaðlegt.

Ég get ekki, þó að ég sé mikill stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar, stutt þetta mál. Það fer algjörlega gegn grundvallarprinsippum mínum að stjórnmálin taki svona mál yfir með þessum hætti, ekki bara í þessu frumvarpi heldur í raun miklu lengra aftur. Ég mun því miður aldrei taka þátt í því — kannski ekki því miður, ég mun aldrei taka þátt í því. Eins vel og ég vil gera við fólk almennt, eins mikið og ég vil vera góður, get ég þetta ekki og mun aldrei gera neitt þessu líkt. Ég bið bara hv. þingmenn að hugsa það: Er þetta skynsamlegt? Eru ekki aðrar leiðir réttari, og í raun einu skynsamlegu leiðirnar, en að við séum að gera svona hluti? Ég bið ykkur að íhuga það. Þetta verður ekki síðasta málið í Íslandssögunni. Ég veit alveg hvernig umræðan er í samfélaginu og ég veit hvernig pólitíkin virkar. Ég ætla ekki að vera þátttakandi í því, þið hin verðið að gera það.