150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[14:47]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við erum í 3. umr. í þessu stóra máli sem er viðkvæmt og á sér mjög langa sögu. Hér er gerð tilraun til að stuðla að því að ljúka málinu með einhvers konar sátt. Sá sem hér stendur hefur ákveðið að styðja þetta mál, þó með örlitlum semingi, og hefur gert fyrirvara við málið sem lýtur fyrst og fremst að því að gera grein fyrir því að hann telur að ekki hafi verið haldið á málinu í aðdraganda þessa frumvarps og eftir sýknudóminn með þeim hætti sem best yrði á kosið.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það hefði verið langbest og eðlilegast að ríkið hefði hagað sínum vörnum gagnvart bótakröfum þeirra sem voru sýknaðir þannig að fallast á það að bótaréttur væri fyrir hendi og síðan hefði verið tekist á um það fyrir dómstólum að ákveða hæfilegar bætur. Það er hin rétta leið í þessum málum.

Hins vegar þróuðust mál á þann veg að aðrar leiðir voru farnar og ég held að það hafi verið orðið óhjákvæmilegt að gera eitthvað og frumvarpið er ávöxtur þess. Úr því sem komið var taldi ég rétt að styðja frumvarpið með þeim ágalla þó að það hefði verið miklu betra að fara aðrar leiðir. Það er erfitt að halda sig alltaf við „ef, hefði og skyldi“ þegar maður stendur í nútímanum. Ef til vill er þá til lítils gagns að tala um það sem hefði átt að gera. Það var einfaldlega ekki gert. Ríkisstjórnin ákvað að taka til varna í málinu og ákvað að fela ríkislögmanni að grípa til ýtrustu varna og hafna bótarétti. Að mínu mati var það og er rangt. En hér stöndum við frammi fyrir þessu. Úr því sem komið er er niðurstaða mín sú að styðja við málið í þeirri von að samþykkt þess leiði til þess að málið taki senn enda og það takist að ná samkomulagi við þá sem sýknaðir voru og aðstandendur þeirra.

Enn vil ég ítreka að það hefði verið miklu eðlilegra að dómstóll fjallaði um bótafjárhæðir. Málið allt saman er þannig vaxið og er svo sérstakt og um svo miklar upphæðir er að tefla að á endanum hefði verið skynsamlegra að láta dóm fjalla um þann þátt málsins. En ég sagði að maður ætti ekki að dvelja um of við „ef, hefði og skyldi“, hér erum við og ég hef ákveðið að styðja málið þrátt fyrir að ég telji að málatilbúnaður hafi ekki verið í því formi sem hann hefði átt að vera.