Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[14:51]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður telur þetta ekki rétta leið og að þetta hefði átt að vera útkljáð hjá dómstólum. En hann ætlar að styðja þetta vegna þess hvernig ríkislögmaður háttaði vörnum sínum, ef ég skil rétt. Þegar ágreiningur er um kröfur á hendur ríkinu er ekkert óeðlilegt við að ríkið geri ýtrustu kröfur, það er bara eðli málsins samkvæmt. (Gripið fram í: Það er vandinn.) Nei, það er auðvitað ekki vandinn. Ef viðkomandi á rétt á bótum eins og lög standa til, úr því að kveðinn er upp sýknudómur, er það hið eðlilegasta mál að ríkið geri kröfur en ef réttur er fyrir hendi á bótum mun dómstóllinn auðvitað dæma þær. Vandinn hér er sá að einungis er um að ræða sýknu á hluta af öllum ákæruliðunum sem viðkomandi voru sakfelldir fyrir. Það hefur aldrei komið úrlausn dómstóla um það hve stór þáttur það er af heildarrefsingunni. Hverjar eiga þá bæturnar að vera? Og hver á rétt á þeim? Þau sjónarmið hafa heyrst að sakborningar hafi að einhverju leyti sjálfir stuðlað að því að vistin varð harðari og einangrunin lengri en ella hefði orðið. Mér finnst mjög sérstakt að menn ætli að styðja þetta en segja samt að fara eigi aðra leið. Sú leið er fær, það þarf ekkert að styðja þetta frumvarp.