150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[14:57]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Gallinn er sá að þeir sem fara með þessi mál fyrir hönd ríkisins hafa ákveðið að fara aðra leið. En nú hefur hv. þm. Brynjar Níelsson ekkert legið á skoðunum sínum í þessu máli. Ég reikna fastlega með því að hann hafi m.a. komið þeim á framfæri við þá ráðherra í ríkisstjórninni sem fyrst og fremst véla um málið og reynt að leiða þeim fyrir sjónir að þetta væri ekki skynsamlegasta leiðin að fara. Það liggur líka fyrir að engu að síður hefur ríkisstjórnin ákveðið að fara þessa leið og hún hefur ekki hlustað á ráðleggingar hv. þingmanns um það að e.t.v. væri nóg að láta í þessu frumvarpi bara koma fram hverjir ættu hugsanlega bótarétt, þ.e. ættingjar og tengdir aðilar og eftirlifendur, að það væri nóg, en fela þá lögmanni sínum að grípa til þeirra varna sem nærtækastar væru miðað við það að menn hefðu þegar fallist á að um bótarétt væri að ræða, menn hefðu þegar ákveðið að víkka út til hverra hann ætti að ná og reka málið þannig. En það er ekki niðurstaðan og það má e.t.v. segja því miður eins og hv. þingmaður. En hér erum við og héðan held ég að við eigum enga leið nema þá sem lögð er til því að ég hef ekki séð nein merki um að stjórnvöld séu tilbúin til að fara aðrar leiðir.