150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[15:17]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni kærlega fyrir andsvarið. Ég vil byrja á lokunum, hvort þeirri sem hér stendur finnist eðlilegt að stjórnmálamenn séu að fara að meta bætur og taka ákvörðun um fjárhæð bóta. Bara yfirleitt, vil ég nú segja, en ekki síst í svona flóknu máli er svarið mjög einfalt: Mér finnst það fullkomlega óeðlilegt. Hvaða forsendur hafa þeir 63 þingmenn sem hér inni sitja til að meta bætur í svona málum? Hvaða bakgrunn höfum við til þess að meta hvað er eðlilegt og hvað er óeðlilegt í því? Hvaða möguleika höfum við til þess? Við höfum enga möguleika til þess. Ég bara segi að mér finnst það fullkomlega óeðlilegt.

En nú er þetta frumvarp þannig að ekki er verið að að ákveða fjárhæðirnar, sem betur fer. En mér finnst þetta, og sagði það hér í 1. umr., bara vont mál. Mér finnst þetta ekki gott þingmál. Það átti ekki að koma hingað inn að mínu mati af því að það er rekið annars staðar, hjá ríkislögmanni. (Gripið fram í.)Ríkislögmaður er sá maður sem er að semja um bætur í hverri viku við þá sem telja sig eiga rétt á bótum. Hann hefur bakgrunn til þess. Það er ekki alltaf svo að mál fari fyrir dóm. Þau eru stundum bara á borði ríkislögmanns.