150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[15:22]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Ég er sammála að þingmenn eigi ekki að vera að ákveða um bætur en er ósammála því að málsaðilar og sérstaklega ríkislögmaður þurfi ávallt að fara fram með ýtrustu kröfur óháð máli. Ég vek athygli á því að umboðsmaður Alþingis er líka ósammála því að ríkislögmaður fari fram með ýtrustu kröfur. Hann hefur margendurtekið þá skoðun sína, síðast í máli dómara vegna Landsréttarmálsins. Þar taldi umboðsmaður Alþingis að ríkislögmaður hefði í raun gleymt hlutlægnisskyldu sem hvílir á ríkislögmanni vegna stærðar þess embættis, að hann geti ekki þar eins og svo oft í öðrum málum farið fram eins og hver annar aðili í einkamáli. Þetta er svolítið svipað og horft er á í sakamálum þar sem ákæruvaldið er ógnarstórt. Það hefur t.d. leitt til þess að brotaþolar í málum hafa ekki fengið meira vægi í sakamálum en raun ber vitni vegna þess að það er talið að þá muni halla um of á þann sem er varnarmegin, þ.e. sakborning, að það séu tveir stórir aðilar öðrum megin. Umboðsmaður Alþingis hefur ítrekað bent á þetta og þess vegna er það ekkert eðlilegt að ríkislögmaður fari fram með þeim hætti sem hann gerir og fari fram með ýtrustu kröfur í greinargerð. Það er það ekki. Ég er bara sammála umboðsmanni Alþingis í þessu efni eins og svo mörgum öðrum.

Varðandi Erlu Bolladóttur er ég alveg sammála því að það mál á ekkert frekar heima hér. Þetta mál á ekki að vera hér að mínu mati. (Forseti hringir.) En það er hér og þá finnst mér óeðlilegt að hvergi sé minnst á hana. Mér finnst það mjög miður að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki enn svarað ítrekaðri beiðni Erlu Bolladóttur sem hefur hangið inni allt þetta ár, þ.e. beiðninni um viðtal.