150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[15:25]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma inn í þetta mál hér þar sem ég sit í nefndinni sem hefur fjallað um það. Ég er ekki sammála þeim sem hafa talað á undan mér um þá nálgun sem viðhöfð hefur verið. Það kemur fram í málinu að ríkisstjórnin hafi, í samráði við ríkislögmann, veitt sérstakri nefnd umboð til að leita samkomulags um sanngirnisbætur í samræmi við málið og að legið hefði fyrir að undirbyggja þyrfti greiðslu bóta með lagasetningu þegar þar að kæmi. Eins og við þekkjum stóðu stjórnvöld í þeirri trú í vor að sátt lægi fyrir við allflesta aðila. Eins og við þekkjum gekk það samt ekki eftir og einn aðili fór í mál og því kom málið inn til okkar fyrr en að við gerðum ráð fyrir.

Tilgangur þessa frumvarps er að tryggja sérstaka lagaheimild að baki greiðslu þessara bóta og fjárútlát ríkisins vegna þeirra. Þó að mörg mál séu snúin í réttarkerfinu okkar treysti ég því að við upplifum aldrei aftur, og ekki afkomendur okkar heldur, mál af þessum toga, enda mannréttindamál og réttindi sakborninga önnur í dag en þau voru á þeim tíma þegar þetta sorglega mál gekk yfir. Það sem er undirliggjandi, og ég vil segja í ljósi þess sem hér hefur verið sagt, er að lögmenn allra þeirra aðila sem nefndir eru í frumvarpinu mæltu með því að málið yrði samþykkt. Það var einróma álit að það yrði gert. Það kom líka fram að skiptar skoðanir væru meðal lögmanna um það hvort réttur þeirra sem eftir lifa, barna og annarra aðstandenda, til miskabóta og jafnvel sanngirnisbóta væri til staðar. Þeir töldu að það styrkti stöðu þeirra sérstaklega að þetta yrði samþykkt hér, það tryggði þá a.m.k. öllum sanngirnisbætur. Auðvitað er mikilvægt að við höfum í huga að réttur þeirra til að fara áfram í dómskerfinu og sækja sér miskabætur verður áfram til staðar en hér er fyrst og fremst verið að vinna að jafnræði. Þar fyrir utan vitum við að það gildir einu um hvaða fjárhæðir er að ræða, ef þannig er horft á það bæta peningar í sjálfu sér ekki þau ömurlegheit sem þetta fólk hefur þurft að upplifa og bera með sér allt sitt líf. Þetta er þó tilraun til að sýna fram á og viðurkenna þau rangindi sem aðilar urðu fyrir af hálfu yfirvalda.

Ég ætla ekki að ræða þetta mikið hér, mér finnst bara mikilvægt að það komi fram að umræðan í nefndinni var að verið væri að vinna með jafnræði gagnvart þessu tiltekna fólki. Við einsettum okkur að horfa fyrst og fremst til þess en ekki fara endilega yfir sögu málsins eða annað slíkt, enda fannst okkur það ekki vera í okkar verkahring.