150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[15:44]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sannarlega viðkvæmt mál sem við erum að fjalla um hér og mér finnst í raun ómögulegt annað en að benda á eitt, þar sem við hv. þingmaður sitjum saman í formannanefnd um breytingu á stjórnarskrá og jafnvel um nýja stjórnarskrá, að hér hefur ekkert verið talað um 2. gr. núgildandi stjórnarskrár. Ég hef oft talað um það að hugsanlega hafi ríkisvaldið farið á svig við stjórnarskrána endrum og sinnum og beitt afli í þá átt. Það mál sem um ræðir er fordæmalaust, við vitum það, en ég veit ekki til að það séu nein fordæmi fyrir því að svona lagað fari í gegnum löggjafann eins og virðist vera hér. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort við getum verið sammála um að fylgja 2. gr. stjórnarskrárinnar, um þrígreiningu ríkisvaldsins, þrígreininguna sem er eitt höfuðeinkenni íslenskrar stjórnskipunar eins og kemur nú fram hjá Stjórnarráðinu. Þessi þrígreining er hugsuð þannig að hvert vald geti haft ákveðið aðhald með hinu, Alþingi og forseti fara með löggjöfina á meðan dómstólar eiga að vera algerlega sjálfstæðir í sínum málum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er ekki ástæða til þess að við lítum inn á við og spáum í það, burt séð frá því sorglega í málinu eða öðru slíku, hvaða afleiðingar það gæti haft ef Alþingi Íslendinga, löggjafinn, ætlar að stíga svona inn á svið dómsvaldsins eins og við erum að gera hér og nú með þessu frumvarpi.