150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[15:48]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ef við setjum okkur bara hér og nú, ekki hvað framtíðin ber í skauti sér og hvernig okkur lánast að breyta reglunum, hvort við með Lögréttu, reynum að rétta lögin í einhverja aðra átt — ég er aðallega að hugsa um hvar við erum stödd hér og nú. Þegar frumvarpið ber með sér að það er jafnvel búið að ákveða upp á krónu hvað hver og einn einstaklingur á að fá og það séum við hér, löggjafinn, sem ætlum að taka ákvörðun um það, algjörlega burt séð frá dómskerfinu, þá er líka sérstaklega mikilvægt, eins og hv. þingmaður kom inn á áðan, að við tölum miklu meira og skoðum málið miklu dýpra en við gerum hér og nú. Það varð einhvern veginn aldrei nein umræða um málið í 2. umr. eins og mér finnst málið verðskulda. Og ef við erum hugsanlega að brjóta í bága við 2. gr. stjórnarskrárinnar með þessu frumvarpi er þá ekki ástæða til þess að við reynum að koma því þannig fyrir að við tölum meira um málið? Málið fari aftur inn í nefnd til frekari umsagna og með tilliti til þessa.