150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[15:51]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir ræðuna sem vakti þó hjá mér ónotalegar kenndir, verð ég að segja. Mér þótti ekki gott að heyra hv. þingmann lýsa yfir fullkomnu vantrausti á dómskerfið á Íslandi. Ég tel að bæði sé ekki gott að hann upplifi það þannig og mér finnst það eiginlega enn alvarlegra vegna stöðu hans sem þingmanns að hann lýsi ítrekað í ræðu á Alþingi yfir algjörri vantrú á dómskerfið á Íslandi. Eftir að hafa starfað í þessu kerfi verð ég að segja að ég er ekki alltaf sammála niðurstöðu í dómum, stundum finnast manni hlutirnir vera ósanngjarnir eða mögulega bara eitthvað vitlausir að manns eigin mati, en það breytir því ekki að ef við ætlum að fara að tala niður dómstólana á Íslandi held ég að við séum komin á svolítið vondan stað.

Eitt er að hafa skoðun á því hvernig réttarkerfið í heild sinni hefur farið með Guðmundar- og Geirfinnsmálið frá upphafi en að lýsa árið 2019 yfir fullkomnu vantrausti á kerfið, að það geti ekki leyst úr þessum anga sem varðar miskabætur og mögulega skaðabætur til þessa fólks, finnst mér mjög óheppilegt orðalag. Ég spyr hvort hann treysti betur Alþingi Íslendinga og þeim þingmönnum sem þar starfa til að ákveða bætur. Þá er ég ekki að tala um neinn persónulega (Forseti hringir.) heldur út frá bakgrunni og möguleika á fordæmi.