150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[15:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hérna förum við út í þá tilætlunarsemi sem ég nefndi í ræðu minni. Manni ber einhver siðferðisleg skylda til að trúa eða treysta ákveðnum hlutum en ég hafna því. Þetta er mjög algengt í trúarbrögðum. Ef maður trúir ekki á guð er maður vond manneskja. Ég er ekki sammála því.

Ég get hins vegar tekið undir ýmislegt í því sem hv. þingmaður sagði. Ég er ekki viss um að ég hafi notað orðin algjör vantrú, ég hef alveg einhverja trú á dómstólum, en ef það slapp út úr mér er það bara þannig. Höfum annað samt alveg á hreinu, ég var ekki að reyna að vekja einhverjar góðar tilfinningar með ræðu minni. Ég var ekkert að reyna að hugga þingmenn en ég var ekki að segja að það væri gott að hafa vantrú. Þvert á móti var ég að segja að það væri slæmt vegna þess að þannig á það ekki að vera. Þess vegna nefndi ég það, vegna þess að það er vandamál.

Ég veit að við erum á vondum stað þegar svo er, það er punkturinn. Mér finnst líka óheppilegt að þingmaður fari í pontu og segi það en ég hef um tvennt að velja. Ég get annaðhvort verið heiðarlegur með það hvernig heimurinn sem ég bý í, og skapaði ekki og stjórna ekki hvernig er, birtist mér eða ég get komið hingað upp og látið eins og ég hafi einhverja trú á fyrirbæri sem ég hef enga sérstaka trú á, einhverja en ekki mikla, og traust til einhverra fyrirbæra sem ég hef ekki traust til.

Virðulegur forseti. Það verður bara að hafa það að þetta fari í taugarnar á fólki og að fólki finnist það óheppilegt, sem það er. Það verður bara að hafa það að fólki finnist það ekki gott. Ég ætla bara að segja hlutina eins og þeir eru, eins og þeir birtast mér í það minnsta.

Þó skal ég segja að ég virði niðurstöðu dómstóla. Ástæðan er ekki sú að ég telji þá endilega komast að réttri niðurstöðu heldur sú að við verðum að hafa einhvern sameiginlegan flöt til þess að útkljá mál þegar upp er staðið. Það er eina leiðin til að halda friðinn, en það er einmitt til að halda friðinn, ekki vegna þess að ég telji niðurstöðurnar endilega réttar eða gáfulegar og í sumum tilfellum finnst mér þær reyndar algjörlega úti á túni. Ég myndi virða niðurstöðuna, mér finnst að lög eigi að gilda og mér finnst að niðurstöður dómstóla verði að gilda en það er vegna þess að ég sé enga aðra leið. Ég er bara ekki sammála því að mér beri einhver skylda sem þingmanni til að láta eins og dómstólar hafi unnið sér inn eitthvert svakalegt traust og trú, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) og hv. þingmaður verður bara að vera leiður yfir því ef það hefur áhrif.