150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[15:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek aftur undir það að það er slæmt. Ég segi ekki að það sé gott, það er slæmt. Mér finnst hábölvað að segja þessa hluti í pontu en ég hef bara um tvennt að velja, að segja heiðarlega frá heiminum eins og hann birtist mér eða gera það ekki. Ég kýs að gera það heiðarlega.

Þetta minnir mig svolítið á umræðu sem ég átti oft í gamla daga við trúað fólk sem var ægilega hneykslað yfir því að ég tryði ekki á kennisetningar kirkjunnar. Þá var ég spurður: En hvað með allt fólkið sem er búið að missa einhvern ástvin og þarf að fá huggun og einhverja hjálp í sínu lífi, einhvers konar hækju til að ganga við til að halda áfram með lífið? Ég skil það, ég skil það mætavel, ég bara trúi þessu ekki, virðulegi forseti. Ég bara trúi því ekki að þetta kerfi sé í þeim dýrðarljóma sem því er gefinn. Mér finnst hv. þingmaður stundum hafa svolítið valkvæða heyrn þegar kemur að þessu þannig að ég ítreka að ég er sammála hv. þingmanni um að við þurfum að hafa miðlægan úrskurðaraðila. Ég er sammála því. Hv. þingmaður lýsti mjög vel ástæðunni fyrir því að við þurfum að hafa það þannig og ég er sammála hv. þingmanni um þetta allt saman. Mér finnst það líka óheppilegt, mér finnst það líka slæmt. Ég er bara að lýsa heiminum (Forseti hringir.) eins og hann birtist mér og hann birtist mér þannig að ég hef ekki þessa ofurtrú á dómskerfinu sem allir ætlast til þess að maður hafi þegar maður er þingmaður.