Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[16:06]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að halda stutta ræðu í lokin til að reyna að draga saman það sem komið hefur fram. Ég hef tekið eftir því hjá mörgum þingmönnum að þeir virðast vera sammála mér um að þetta mál eigi heima hjá dómstólum, það sé óeðlilegt að stjórnmálamenn taki svona flókið, lögfræðilegt úrlausnarefni til sín og reyni að leysa úr því í stað þess að dómstólar geri það. Samt heyrist manni, t.d. á Viðreisnarmönnum, sem menn ætli að styðja það að pólitíkin yfirtaki flókið lögfræðilegt úrlausnarefni, semji um bæturnar og finnist það ekki tiltökumál, að þeir ætli samt að greiða atkvæði með því. Ég hef áhyggjur af því. Ekki heyrist orð í þeim mörgu sem tala hér gjarnan um þá óeðlilegu hegðun stjórnmálamanna að vera að skipta sér af og þess háttar, það er jafnvel notað orðið spilling. Ekki heyrist orð um að þetta séu óeðlileg afskipti stjórnmálamanna. Þeim finnst ekkert athugavert við þetta, en mér finnst þetta mál vera óeðlilegt. Þó að ég vildi gjarnan leysa úr vandamálum fólks og greiða því peninga frá skattgreiðendum, (ÞorstV: Eins og frægt er orðið.) eins og frægt er orðið, get ég ekki sætt mig við þennan framgang. Þetta er undir öllum kringumstæðum óeðlilegt. Menn koma í ræður og úthúða ríkislögmanni hvað eftir annað sem er samt bara að sinna sínu starfi. Hann hefur umboð til að semja og hann gerir það á lögfræðilegum forsendum sem hann telur líklegt að verði nálægt niðurstöðu dómstóla. Hann getur ekki gert annað. Svo hneykslast menn á því að hann geri ýtrustu kröfur í málinu. Ef ég væri ráðherra yrði ég heldur betur fúll út í ríkislögmann ef hann gerði ekki ýtrustu kröfur í máli sem væri höfðað á hendur mér. Þá er það orðin einhver umræða í þessu máli um ríkislögmann sem svo vill til að er sérstaklega vandaður maður. Ég held að við verðum algjörlega að endurskoða hugsun okkar og passa að svona mál eða sambærileg komi ekki aftur hingað. Ég legg sjálfur til að þetta mál fari aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. (ÞorstV: Þetta er 3. umr. núna.) Já, það er í 3. umr. núna. Jæja, það fer þá ekki mikið til nefndar. (Gripið fram í: Jú.) (Gripið fram í: Það er búið að senda það þangað.) Ókei, það er hægt.

Ég ætla ekki neinum illt. Ég skil alveg sjónarmið fólks og ég skil vandamál ríkisstjórnarinnar. Ég skil vandamál ráðherra en við höfum einhvern veginn verið gjörsamlega sofandi yfir aðalatriðunum í þessu máli. Málið er ekki hvort við finnum til með sakborningi. Við erum sofandi yfir aðalatriðinu í málinu sem er það að við stjórnmálamenn séum að taka að okkur að reyna að leysa úr flóknu, lögfræðilegu viðfangsefni vegna þess að það er fullt af flóknum, lögfræðilegum atriðum í þessu máli. Kannski er stærsta lögfræðilega atriðið það að í dómsmálinu var aldrei krafist endurskoðunar á refsingu, þ.e. á því hversu mikil áhrif þessi sýkna í málinu ætti að hafa á refsingu. Það var aldrei gerð nein krafa fyrir Hæstarétti um það. Dómstólar fengu ekki að taka afstöðu til þess. Þeir geta tekið afstöðu til þess í dómsmáli sem höfðað er út af bótamálunum. Þess vegna krefst ríkislögmaður sýknu. Hann veit ekki hversu stór hluti þetta er og hvort að einhverju leyti megi rekja þetta langa gæsluvarðhald til sakborninganna sjálfra og að þess vegna eigi þeir kannski lítinn eða engan rétt á bótum. Þetta er vandamálið sem við erum að glíma við.