150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[16:12]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Alþingi getur auðvitað lagt fram frumvarp um hvað sem er. Alþingi getur samþykkt frumvarp um að greiða hverjum sem er bætur. Það brýtur ekki gegn stjórnarskránni. Ég er bara að segja að þetta frumvarp leyfir stjórnvöldum að ganga frá ákveðnu máli og mér finnst í þessu tilviki, þegar málið liggur svona, ekki rétt að stjórnmálamaðurinn, ráðherrann eða hans fólk taki í sjálfu sér ákvörðun um hvað þeim finnist sanngjarnt og eðlilegt. Það verður að byggjast á lögfræðilegum grunni þannig að hægt sé að gera það. Til að við getum ákveðið eðlilegar bætur þurfum við að vita til að mynda hversu stór hluti af refsingunni þetta var. Hver metur það? Í mínum huga bara dómstólar. Við getum ákveðið allt, en mér finnst óeðlilegt af okkar hálfu að gera það. Það stenst í grunninn ekki alla hugsunina um þrískiptinguna en ég er ekki að segja að þetta frumvarp brjóti í bága við stjórnarskrá. Ég hef aldrei talað um það.

Hugsunin er samt sú að við sjáum um ákveðna hluti hér, dómstólarnir, sem sumir treysta ekki neitt, sjá þó um hitt, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Satt best að segja treysti ég þeim betur en okkur þó að við séum æðisleg, hv. þingmaður. (Gripið fram í.)