150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[16:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef einmitt ekki tekið eftir því að hv. þingmaður hafi nefnt stjórnarskrárlegt samræmi og þess vegna fór ég að velta þessu fyrir mér, sérstaklega í kjölfar samtals míns við hv. 8. þm. Reykv. s., Ingu Sæland.

Hv. þingmaður nefnir að þetta stangist á við hugsunina um þrískiptingu valdsins og ég skil það. Ég ber mjög mikla virðingu fyrir henni og er sjálfur að reyna að vera leiðinlegur hvað varðar það efni. Það er akkúrat hlutverk stjórnarskrár að hafa slíka hluti skýra þannig að þingið sé ekki dómari og dómstólar ekki löggjafinn, framkvæmdarvaldið ekki löggjafinn o.s.frv. Mér finnst eins og hv. þingmaður vilji hafa þetta betra en það sem lagt er upp með í þessu máli en samt ekki hafa formfast í stjórnarskrá að það skuli vera betra.

Ég vona að ég sé ekki að leggja hv. þingmanni orð í munn en ef ég er að því er það vegna þess (Forseti hringir.) að ég skil þetta raunverulega ekki. Ég bara skil þetta ekki.