Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[16:19]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég myndi a.m.k. segja að við værum á hálli braut. Að mínu viti er þetta ekki skynsamlegt, þetta er ekki í samræmi við það sem við erum alla jafna að hugsa, hvernig við viljum hafa hlutina, að ýta venjulega stjórnmálamönnunum lengra og lengra frá, að þeir eigi ekki að vera að skipta sér af hlutunum, en svo þegar upp kemur svona mál hverfur einhvern veginn þessi umræða og á allt í einu ekki við lengur. Enginn hefur áhyggjur af því. Mér sýnist að 70–80% af þingheimi vilji bara segja já. Kannski er hluti þingmanna á gulu sem er ekkert annað en já í mínum huga í þessu tilviki.

Þetta er svolítill tvískinnungur, ef þú ert að reyna að toga það upp úr mér, í umræðunni þegar við erum að tala um hvað sé eðlilegt að stjórnmálamenn geri og hvernig þeir hegði sér. Ég hélt um það ræðu í 1. umr. að mér fyndist ekki gott hvernig stjórnmálin hafa yfirtekið þetta mál frá upphafi. Síðan liggur það lengi niðri en kemur hingað eftir hrun og þá er orðin mjög pólitískt þung krafa um að málið verði endurupptekið. Þá var búin til nefnd, málið endurupptekið og sýknu krafist.

Þessi framkvæmd finnst mér alveg svakalega hættuleg og vond í heild sinni. Það sem er að gerast hér er kannski bara rökrétt afleiðing af því. Kannski kemur þetta til vegna þess að menn voru ekki alveg vissir um að þeir fengju dæmdar alvörubætur og vildu hafa tækifæri til að greiða hærri bætur. Kannski voru þeir ekki vissir um að allir aðstandendur fengju bætur og þá átti kannski að reyna að tryggja að þeir fengju bætur. (Forseti hringir.) Þetta finnst mér ekki gott pólitískt vald, bara vont.

(Forseti (ÞorS): Minnt er á að þingmönnum ber að beina máli sínu til forseta.)