150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[16:21]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir svarið. Þetta er kannski svolítið það sem ég var að spyrjast fyrir um og vildi fá svör við. Við erum farin að teygja okkur of langt og ég tek undir með þeim sem hér hafa sagt að málið sé ömurlegt í alla staði. Það er sorglegt en við getum ekki látið þær tilfinningar hafa áhrif á okkur í þá veru að við förum að kássast upp á þrískiptingu ríkisvaldsins eða hlutast með einum eða öðrum hætti til um úrlausnir dómstóla. Við getum í besta falli lært af þessu og tryggt með lagasetningu að svona komi ekki fyrir aftur eða reynt a.m.k. eftir okkar bestu getu að hindra það. Ég vona innilega að við berum gæfu til þess en verð að segja að ég undrast það að við ætlum að grípa inn í með þessum hætti.