150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

framlagning stjórnarmála.

[16:45]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson kom hingað upp og nefndi að það væri alvanalegt að það væri mikið álag á þingmönnum fyrir þinghlé. Þess vegna tel ég mig tilneydda til að koma hingað upp til að lýsa því yfir að ég kvarta ekki undan álagi á þinginu. Það er ekki vegna álags sem ég kem hingað upp heldur vegna þess að vinnubrögðin verða að vera þannig að við skilum frá okkur fullnægjandi afurð úr nefndunum. Þegar vinnubrögðin eru svona, að við höfum ekki tíma til að lesa yfir þær umsagnir sem berast á undraskömmum umsagnarfresti í máli sem hefur legið í mjög skamman tíma inni í samráðsgátt, þrátt fyrir að hafa legið ljóst fyrir í lífskjarasamningunum síðastliðið vor, þá getur maður ekki annað en sagt: Af hverju var ráðherra sem sá að málið lá fyrir í lífskjarasamningi síðastliðið vor (Forseti hringir.) — og ekki bara eitt heldur tvö mál sem voru að dembast inn í þingið núna — ekki að lesa þær umsagnir sem bárust inn í samráðsgátt og skila málinu inn í þingið með fullnægjandi hætti?