150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

framlagning stjórnarmála.

[16:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nú verðum við vitni að kunnuglegum dansi þar sem hefðbundin vinnubrögð eru að setja bara í háa gírinn og keyra allt í gegn rétt áður en þing klárast. Þið kannist öll við það. Virðulegur forseti kannast alveg við hvernig þetta er. Þegar það gerist þarf stjórnarandstaðan að segja: Bíddu, aðeins fagleg vinnubrögð hérna, við ætlum ekki að keyra allt í gegn á núll einni og lenda hugsanlega í svipuðu tjóni og ég nefndi áðan sem dæmi. Þegar þessi ríkisstjórn var mynduð var talað um breytt vinnubrögð. Hluti af breyttum vinnubrögðum í þessum dansi er að ríkisstjórnin byrji á samtali en ekki á að setja í háa gírinn og keyra í gegn og bíða eftir viðbrögðum frá stjórnarandstöðunni. Það er einfaldlega þannig. Það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að byrja ekki að keyra allt í gegn og athuga hvort það ofbeldi virki heldur á að byrja á því að spyrja og tala og semja.