150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

staðfesting ríkisreiknings 2018.

431. mál
[16:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi reikningur fyrir árið 2018 er, eins og ég tók fram, birtur á þessum staðli með þeim undanþágum sem ákveðnar hafa verið, þ.e. þessi þriggja ára tími sem við höfum til þess smám saman að innleiða staðalinn. Hér er spurt um samkomulag við kirkjuna og vísað í fyrirspurn um nákvæma útlistun á eignunum. Það verður bara að segjast alveg eins og er að eins og fram kom í svarinu á sínum tíma virðist vera mjög umfangsmikið verkefni og afar flókið að gera nákvæma grein fyrir þessu en á endanum mun þurfa að taka ákvörðun um hvernig eigi að færa þetta til eignar í bókum ríkisins. Ég held að þetta verði ekki eina dæmið um það þar sem einhver álitamál koma upp um það með hvaða hætti sé nákvæmlega rétt að verðmeta á eignahlið efnahagsreikningsins. Það er hægt að búa sig undir að það geti verið álitamál við innleiðingu á staðlinum. Verkefnið er í sjálfu sér til þess hugsað að við getum yfir tíma áttað okkur á því hvort við erum t.d. með opinberri fjárfestingu að viðhalda stofni eigna ríkisins eða hvort við erum að trassa nauðsynlega fjárfestingu til að halda þessum eignum við. Hugmyndin er að við höfum gleggri mynd af raunverulegri stöðu opinberra fjármála á eftir.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það eru vandkvæði vegna þessara tilteknu jarða.