150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[17:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að svara fyrra andsvari. Aðeins varðandi tengiltvinnbifreiðarnar vil ég benda á að við vorum með tímabundna ívilnun og við erum ekki að framlengja hana. En þetta er álitamál. Við teljum t.d. í því tilviki hreinlegra að hafa einhverja dagsetningu frekar en að treysta á fjöldann, láta dagsetningu ráða frekar en fjölda. Varðandi almenningssamgöngur og strætisvagna, svo dæmi sé tekið, eða hópbifreiðar, þá eru þetta gríðarlega dýr atvinnutæki. Það þarf mjög mikla ívilnun, vegna þess hversu dýr þessi atvinnutæki eru í innkaupum, til þess að það fari að muna einhverju. Það er töluvert stór biti að kyngja fyrir allan hópbifreiðaflotann á landinu og alla almenningsvagna að veita almenna ívilnun með fullkominni niðurfellingu allra vörugjalda og virðisaukaskatts. Það væri mjög stór biti tekjulega að kyngja fyrir ríkið. En hér er a.m.k. lagt af stað með ákveðin skref.