150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[17:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vék aðeins að því í framsöguræðu minni að þetta á a.m.k. að gefa svigrúm fyrir lægra verð á bílaleigumarkaðnum en mér hefur sýnst að þar hafi menn farið í gegnum töluvert mikla sveiflu á undanförnum árum. Við höfum séð það á innflutningstölunum að bílaleiguflotinn er orðinn gríðarlega stór og fækkun ferðamanna á yfirstandandi ári hefur eflaust eitthvað komið við þann markað. Ég nefni þetta vegna þess að væntanlega ræðst svarið við þessari spurningu á endanum af því hvort nægileg samkeppni er á þessum markaði. Eins og alltaf ræður framboð og eftirspurn úrslitum. Þetta mun á endanum haldast í hendur við eftirspurnina. Erum við með nægilega þéttriðið hleðslustöðvanet til að ferðamenn líti á það sem raunhæfan valkost að taka rafmagnsbíl og er verðið nægilega lágt (Forseti hringir.) til að þetta sé kostur sem þeir kjósa?