150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[17:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í framsögu minni vakti ég athygli á því að þetta frumvarp er annars vegar með rætur í stjórnarsáttmálanum og hins vegar í þingsályktun um aðgerðaáætlun um orkuskipti en auk þess má nefna að við byggjum frumvarpið á aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum 2018–2030 og í þessum áætlunum, bæði í þingsályktuninni og í áætlun um aðgerðir í loftslagsmálum, eru markmið. Þau eru nokkuð skýr og svo ég grípi niður í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum er í kaflanum um orkuskipti í vegasamgöngum talað um að ráðist verði í „átak í orkuskiptum í vegasamgöngum, þannig að notkun jarðefnaeldsneytis leggist á endanum af, en í staðinn verði nýtt innlend raforka og loftslagsvænt eldsneyti á borð við vetni, metan og lífeldsneyti“ og vísað í að þetta sé sambærilegt átak og við fórum í á 20. öld varðandi húshitun. Þess er vænst að aðgerðirnar sem taldar eru upp stuðli að því að það takist að draga úr losun frá vegasamgöngum um helming eða meira til ársins 2030 miðað við stöðuna nú.

Í þessari áætlun er talað um ýmsar aðgerðir, ívilnanir fyrir loftslagsvæna bíla og eldsneyti. Það er talað um kolefnisgjaldið og um stuðning við innviði fyrir rafbíla og aðrar vistvænar bifreiðar og byggingar- og skipulagsreglugerðir o.s.frv. Það er hægt að draga fram að í þessari aðgerðaáætlun er beinlínis talað um þær aðgerðir sem við erum hér að koma með. Þetta frumvarp er ekki aðgerðaáætlun, það er aðgerðin sjálf, aðgerð sem byggir á stjórnarsáttmálanum, þessari þingsályktun frá 2017 um orkuskipti og aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. (Forseti hringir.) Þar eru markmið sem við erum að vinna að.