150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[17:47]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er merkilegt að nákvæmlega þessi aðgerð rímar ekki alveg við t.d. skýrsluna Milljón tonn þannig að enn vantar að fylla upp í heildina hvað það varðar. Ég spurði sérstaklega hversu miklum árangri þessi aðgerð næði af því markmiði. Þær upplýsingar vantar alveg. Aðgerðirnar sjálfar eru hvorki kostnaðarmetnar né ábatametnar, þ.e. ávinningur hverrar aðgerðar fyrir sig. Það er sagt að við ætlum að ná tilteknum árangri fyrir árið 2030 og við leggjum til lista af aðgerðum. Ég spyr: Hvað kostar hver aðgerð og hversu miklum árangri nær hver aðgerð? Það er svarið sem vantar. Án þess að vita hversu miklum árangri af heildinni þessi aðgerð nær er miklu erfiðara fyrir okkur að tala um að þeim peningum sé vel varið. Ef þetta næði 90% af væntum markmiðum væri það frábært og væri líklega mjög góð notkun á almannafé miðað við þær tölur. Ég hef hins vegar ekki hugmynd um það og það er það sem ég er að kvarta undan til að geta tekið umræðu um árangur og ábata af notkun á skattfé sem á einmitt að koma fram í ársskýrslum ráðherra. Hvernig tókst til, hver var ábatinn af notkun á skattfé? Það á að koma fram í ársskýrslum ráðherra. Ef ekki er tekið fram hver ábatinn af hverri aðgerð á að vera getum við ekki spurt eftir á hvort það hafi tekist eða ekki. Það er alltaf hægt að segja: Þetta gekk alveg æðislega. Við vitum ekki hvaða árangri þetta átti að ná en þetta tókst æðislega.

Það er ekki réttur tónn, virðulegur forseti.