150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[17:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þessi umræða snúist fyrst og fremst um það hversu nákvæmar aðgerðaáætlanir eiga að vera. Hér erum við að tala um að draga um helming úr losun á jarðefnaeldsneyti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að mörg af okkar markmiðum eru dálítið almenn, eins og t.d. að fjölga umhverfisvænum bifreiðum í flotanum. Það er almenn aðgerð. Ef menn vilja kalla eftir því að menn setji nákvæmlega töluna á það hversu margar vistvænar bifreiðar við stefnum á er svarið við því: Bara sem flestar. Ég veit hins vegar ekki hvort mikið væri unnið með því að fara út í eins nákvæma markmiðssetningu og hv. þingmaður kallar eftir. Ég hef efasemdir um að það ríði baggamuninn þó að það geti verið ágætt fyrir þá eftirfylgni sem hv. þingmaður er að tala um.

Síðan er eitt í þessu, menn geta haft ólíkar skoðanir á því hvað er góður árangur og hversu hröð breyting er ásættanleg. Sumir eru þeirrar skoðunar, eins og við heyrum í umræðunni um loftslagsmálin, að þetta þurfi allt að gerast strax, á morgun, það eigi hreinlega að banna þær bifreiðar sem brenna jarðefnaeldsneyti á meðan aðrir segja að þetta muni taka tíma. Ég heyri alveg punktinn, mér finnst hann snúast um að við séum ekki með nægilega nákvæmar aðgerðir. Það er alveg hægt að halda því fram en það er alltaf álitamál hversu nákvæmir menn eiga að vera.