150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum um skatta.

432. mál
[17:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er að benda á að það er ekkert, a.m.k. ekki hvað aðgerðirnar varðar — í baráttunni nákvæmni-á-móti-ekkert er ég einhvers staðar mitt á milli. Ég er ekki að biðja um að 234 bílar eigi að vera rafmagnsbílar á næsta ári eða 2034. Við erum að tala um skala. Við erum að tala um á ákveðnu bili, hámark og lágmark eða eitthvað því um líkt. Það eina sem ég er að biðja um er að setja markmiðin niður á blað í staðinn fyrir að hafa engin. Það er ekki fyrr en þá sem við getum byrjað að vera nákvæm. Ég býst við mikilli ónákvæmni til að byrja með en það er alltaf meiri nákvæmni en að hafa ekkert til að miða við. Það er það eina sem ég kalla eftir. Svo má líka alltaf tala um hversu hröð breyting er æskileg o.s.frv. ef við höfum það fyrir framan okkur. Ef þetta er sú hröðun á breytingum sem við búumst við og ætlum okkur að ná getum við talað pólitískt um það hvort það sé rétt eða röng hröðun eða eitthvað því um líkt. Á meðan við höfum ekkert fyrir framan okkur getum við hins vegar ekki einu sinni talað um það.