150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

búvörulög.

433. mál
[18:30]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu þessa frumvarps um breytingu á búvörulögum. Mig langar að spyrja ráðherrann út í það sem kemur fram í 2. gr. þar sem lagt er til að stofnsettur verði markaður fyrir greiðslumark mjólkur og að viðskipti muni byggjast á markaðsfyrirkomulagi sem gilti á árunum 2011–2016, þ.e. markaði með greiðslumark þar sem óskað er eftir að kaupa greiðslumark mjólkur eða það boðið til sölu. Markaðsverð grundvallast á jafnvægisverði og ef þróun á markaði verður óeðlileg að teknu tilliti til framboðs, eftirspurnar og aðstæðna að öðru leyti er gert ráð fyrir í samkomulagi dagsettu 25. október 2019 að ráðherra verði heimilt, að fenginni tillögu framkvæmdanefndar búvörusamninga, að setja hámarksverð á greiðslumark. Þá er lagt til að ráðherra skuli í reglugerð mæla fyrir um nánari framkvæmd markaðar með greiðslumark, forgang, nýliða og frekari skilyrði til tilfærslu eða breytingar skráningar greiðslumarks.

Þá langar mig til að spyrja ráðherrann í framhaldi af þessu: Hvar myndi ráðherra geta hugsað sér að stíga inn í markaðinn eða við hvaða aðstæður eða á hvaða stigi að þessu gefnu?