150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

búvörulög.

433. mál
[18:33]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég get í sjálfu sér alveg haft hugmyndir um það á hvaða stigi ég gæti hugsað mér að ráðuneytið tæki afstöðu á þessum markaði en við höfum náð samkomulagi við bændur um það fyrirkomulag að framkvæmdanefnd búvörusamninga, þar sem sitja þrír fulltrúar bænda og þrír fulltrúar ríkisins, geri tillögu til ráðherra eftir mat á stöðu mála á markaði. Ég mun við þá ákvörðun sem mér ber að taka reiða mig á þá tillögu sem þaðan kemur vegna þess að ég ætlast til þess að framkvæmdanefndin um framkvæmd búvörusamninga geti aflað sér upplýsinga og lagt raunhæft mat á það með hvaða hætti verðþróun á þessum markaði verði áður en fyrsti markaður fer fram, sem áætlað er að verði, ef ég man rétt, 1. apríl. Það er fyrirkomulagið sem samið hefur verið um og ég hlýt að reiða mig á að þessi ágæta nefnd og þeir ágætu einstaklingar sem þar sitja muni leggja sig fram við það að leggja fyrir mig vel ígrundaða tillögu sem ég tek afstöðu til.